sunnudagur, 4. nóvember 2012

Af litlum efnum koma góðu hugmyndirnar

Síðustu vikur hef ég skoðað hundruðir af híbýlum, stórum og smáum, gömlum og nýjum, fallegum og ljótum og eiginlega allt þar á milli. Við fjölskyldan ákváðum nefnilega ekki fyrir svo löngu að við þyrftum að flytja okkur um set. Fundum reyndar draumahúsið og stóðum með samninginn í höndunum, tilbúin að skrifa undir þegar við fengum þau skilaboð að húsið var selt. Mikil vondbryggði hjá öllum fjölskyldumeðlimum, enda farin að innrétta húsið í huganum og rífast (í góðu þó) um hver fengi stæðsta herbergið. En þetta bakslag þýddi auðvitað að leitin að draumahúsinu fór aftur í gang og því hef ég nú setið yfir tölvunni og skoðað og skoðað. Við ætlum að halda okkur við planið að flytja héðan úr Skeljagarðinum og rembast við að finna heimili nær vinnunni hans Hanna og óskastaðan er að það fylgi bílskúr og garður. Við erum ekkert að biðja um einhverja höll, enda ekki vön því að búa þannig, bara hús með smá privat og plássi fyrir alla og okkar áhugamál.

Með þessa ákvörðun okkar byrjaði s.s. ballið. Pappakassar komu í stríðum straumi inn á gólf og það sem við höfum lengi hugsað til með hryllingi hófst. Að pakka niður.
Ég á mikið af dóti, voða mikið, og strákarnir mínir kalla mig safnara og eflaust þykir mörgum að heimilið sé yfirfullt af "drasli". Ég er auðvitað alls ekki sammála, vil að heimilið mitt beri þess vott að hér búi fólk, hlutirnir séu notaðir og það sem skiptir mig mestu að það sé heimilislegt og hlýlegt og okkur fjölskyldunni og okkar vinum líði vel þar sem ég bý. Mér finnst svo ekki verra ef ég hef safnað að mér hlutum sem ekki eru "bara" keyptir út úr búð. Helst af öllu vil ég hafa gert sem mest sjálf, nú eða við hjónin í sameiningu. Þannig er ég bara alin upp hjá henni ömmu minni, sem alltaf var að gera eitthvað í höndunum, og að því mun ég búa allt mitt líf og það mun ég þakka allt mitt líf. 

Eftir að við fluttum hingað út til Norður Jótlands hef ég smitast af genbrugs pakteríunni. Við Hanni förum reglulega og kíkjum í slíkar búðir og erum búin að finna allra handa góða hluti á ferðum okkar. Við höfum líka verið ansi heppin og oft fundið hluti á góðu verði, farið heim og gert upp og svo nokkrum mánuðum síðar er þetta komið í einhverja tísku og verðið hækkar svo um munar.
Þennan frekar slitna rokokostól fengum við fyrir lítið og löguðum að okkar smekk.
Kostaði okkur samanlegt 500 danskar krónur. Nú er ekki hægt að kaupa svona stóla undir 1000 krónum nema þeir séu verulega illa farnir.
 

Ég er líka ansi lunkin af finna fína hluti, þó ég segi sjálf frá ;-) Það þarf auðvitað að æfast aðeins í þessari endurnotkun á húsgögnum og vera smávegis rótari í sér. Hef farið nokkrar ferðir með öðrum sem alls ekki hafa komið auga á eitt né neitt og ég fer heim með 2 til 3 hluti og auðvitað alsæl. Þetta er auðvitað lífsstíll í sjálfu sér og þar sem ég aðhellst líka, og hef þá föstu skoðun, að því minna sem þú getur eitt í hluti í kringum þig því skemmtilegri og uppfinningasamari ertu, þá sérðu bestu hugmyndirnar fæðast þegar maður þarf að passa aurinn en ná ákveðnu takmarki. Leti er líka voða góður uppfinningamaður, en ég er reyndar ekki illa haldin af letinni, svona almennt, svo það á minna við um mig, meira passar þetta með aurinn.
Þessi ljós fann ég í genbrugsferð með vinkonu minni og held henni hafi ekkert litist á þau. Ég er alsæl með þau og eftir fagmannleg handtök eiginmannsins sóma þau sér afar vel sem vinnuljós í eldhúsinu. Lagið á þeim minnir mig alltaf eitthvað á Audrey Hepburn í Breakfast at Tiffanys. Nú á ég einstök ljós og ekki skemmdi að pyngjan varð lítið sem ekkert léttari við kaupin.
 Mér finnst líka fólk vera ansi duglegt við að afskrá hluti, setja í geymsluna og jafnvel henda. Þegar ég hugsa til allra bóndabæjanna, geymslanna og skúmaskotanna sem eru uppfullt af "drasli" fæ ég sting í mitt litla hjarta. Hef sko komið á nokkra staði þar sem ég gæti alveg hugsað mér að fá að leika lausum hala og kippa með mér eins og einum, eða tveim, borðfótum, hurðum, skápum og fleira sem búið er að afskrifa og laga aðeins til og finna nýtt hlutverk. Þá væri ég sko komin í mitt himnaríki.

Auðvitað er það ekki allra, þetta með endurnotkun og vinnslu á húsgögnum og slíku og mér finnst það að sjálfsögðu alveg gott og blessað og virði það og ég á sko flatskjá í stofunni og hef líka keypt mér nýjann sófa. Það er bara eitthvað svo mikið meira gefandi fyrir mig að fást við þá áskorun að gera mér heimili og umhverfi sem ég hef unnið sjálf við, sett heilann í bleyti við að finna út hvernig á að gera hlutinn og svo sjálft verkið þegar að því er komið.

Okkur Hanna þykir líka afar skemmtilegt að bjóða fólki til okkar og helst troða það út af mat og tilheyrandi og veislur stórar sem smáar fá oftar en ekki að kenna á þessari sömu ástríðu minni með að búa eitthvað til sem ekki endilega kosta herragarðinn og vera svolítið uppfinningasöm í leiðinni. Ekki bara á þetta við um matargerðina heldur líka ef tilefnið gefur til að skreyta umhverfið. Ég veit ekki með ykkur en mér þykir það alltaf skemmtilegast og flottast þegar ég sé að það hefur verið sett smá hugsun á bakvið hlutina og helst þegar það sést að hlutirnir eru heimagerðir. Persónulegra og jafnfram hlýlegra getur það varla verið í mínum huga.

Fékk þessa mynd lánaða af Fb frá Haustgrillinu.
Hægt að nota laufblöð og fleira úr garðinum og úr
verður flott borðskraut.
Nú fyrir skemmstu vorum við að vinna við árlega veislu Íslendingafélagsins hér á Norður Jótlandi og ég gerði smávegis skraut svona til að gera salinn sem veislan var haldin í aðeins meira hlýlegri. Haustlegur pappír skorinn út í blóm, laufblöð úr garðinum, kertaljós í skreyttum glerkrukkum og allt varð eitthvað svo meira huggulegra. Það þarf nefnilega ekki alltaf að rjúka út í búðina og kaupa og kaupa.

Um næstu helgi ætla svo konurnar hér á svæðinu að skemmta sér saman undir yfirskriftinni Nornakvöld. Það verður að sjálfssðgu skreytt og nú er s.s. búið að safna saman notuðum áldósum, glerkrukkum og vínflöskum sem fá sína skreytingu. Svo verður farið út í garð og klipptar greinar, búið til kóngulær og leðurblökur úr pappír og efni tætt niður í kóngulóarvef og tilheyrandi óhuggulegheit.



Glerkrukkur og vínflöskur hafa fengið nýtt hlutverk undir kerti og annað görótt og draugar búnir til úr smá efnisbút, frauðplastkúlu, bambusspjóti og smá hugmyndaflugi.
En nú er víst komin tími til að setjast við saumavélina og sauma eins og einn nornabúning fyrir næstu helgi. Lofa að setja inn myndir frá herlegheitunum.
Hafið það gott þangað til næst!

0 ummæli:

Blog Archive

Vinsælast

Flokkar

Knúið með Blogger.
Follow Me on Pinterest